Minning: Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður

Góður og kær vinur, Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður, var jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag.

Í tilefni að því skrifaði ég minningargrein um Guðmund Ingva sem birtist í Morgunblaðinu í dag:

Með hlýhug og söknuði kveð ég Guðmund Ingva Sigurðsson, hæstaréttarlögmann, sem nú er fallinn frá.

Guðmundi Ingva kynntist ég þegar ég réð mig til starfa á lögmannsstofu hans, Lex, í kjölfar útskriftar frá lagadeild Háskóla Íslands.  Þegar ég hóf minn lögmannsferil hafði Guðmundur Ingvi stundað lögfræðistörf í hálfa öld og rekið og flutt mörg af umtöluðustu og umfangsmestu dómsmálum sögunnar.  Það var ómetanlegt fyrir ungan lögfræðing sem var að stíga sín fyrstu skref í faginu að eiga óheftan aðgang að slíkum viskubrunni sem Guðmundur Ingvi var.  Frá fyrsta degi mínum í því starfi tók hann mér einstaklega vel og alla tíð fann ég fyrir miklum velvilja og hlýhug frá honum í minn garð.  Hann reyndist mér alla tíð afar vel og fyrir það verð ég honum ávallt þakklátur.

Guðmundur Ingvi var hlýr maður og einlægur.  Hann hafði ríka réttlætiskennd og fann til mikillar samúðar með þeim sem áttu undir högg að sækja.

Fáum mönnum hef ég kynnst sem hafa haft jafn mikinn áhuga á fólki og fyrirbærum úr öllum kimum samfélagsins eins og Guðmundur Ingvi.  Hann var þeirrar gerðar að hann gerði aldrei upp á milli manna, hvort sem þeir höfðu notið velgengni í lífinu eða ekki.

Meðan við störfuðum saman ræddum við Guðmundur Ingvi oft um pólitík.  Hann vissi hvar ég hafði staðsett mig á þeim vettvangi, en aldrei vissi ég hvar hann stóð, þó ég hafi gert mér upp hugmyndir um það.  En ég lét mér það alltaf í léttu rúmi liggja.  Mannkostir hans voru þess eðlis að það skipti mig engu máli.

Guðmundur Ingvi  var bráðfyndinn og skemmtilegur maður, eins og hann átti kyn til, og gerði óspart grín að samferðamönnum sínum, en ekki síður að sjálfum sér.  Það var alltaf jafn skemmtilegt umgangast hann og hlusta á allar sögurnar sem hann hafði á hraðbergi. 

Um leið og ég sendi fjölskyldu hans, vinum og vandamönnum mínar innilegustu samúðarkveðjur vil ég þakka fyrir það að hafa verið svo lánsamur að hafa fengið að kynnast og starfa með þessum merka manni, eiga með honum samleið og í honum góðan vin.

Guð blessi Guðmund Ingva Sigurðsson.  Hans mun ég alltaf minnast af miklum hlýhug og þakklæti.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband