Ólafur Ragnar skuldar skýringar

Hvort sem menn eru þeirrar skoðunar að ákvæði stjórnarskrár Íslands heimili forseta Íslands að synja lögum staðfestingar eða ekki er engu að síður ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson forseti þarf að útskýra hvers vegna hann staðfesti nýsamþykkt lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands.

Þær útskýringar sem fram koma í yfirlýsingu Ólafs Ragnars frá því í gær duga ekki.  Raunar er yfirlýsing Ólafs Ragnars illskiljanleg, en þar segir:

,,Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Hvergi í stjórnarskrá er gert ráð fyrir því að forseti Íslands staðfesti lög með ,, sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis“ eða geti bundið staðfestingu sína einhverjum skilyrðum eða fyrirvörum.

Annað hvort staðfestir forseti Íslands lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi eða ekki.  Það er sama hversu oft menn lesa ákvæði stjórnarskrárinnar.  Stjórnarskráin býður ekki upp á neina sýndarmennsku og þar fyrirfinnast engar millileiðir eða millileikir eins og Ólafur Ragnar virðist vera að reyna að leika, að því er virðist til þess að reyna að forðast óvinsældir.

Reyndar er það svo að frá því að stjórnarskráin tók gildi hafa bæði fræðimenn á sviði stjórnlagafræða og stjórnmálamenn, þar á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, talið að ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um synjunarvald forseta Íslands væri dauður bókstafur og talið að í þingræðisríki hefði forsetinn ekki heimildir til þess að ganga gegn vilja lýðræðislega kjörins Alþingis.

Látum þá þrætu hins vegar liggja milli hluta í bili.

x x x

Forseti Íslands hefur einu sinni neitað að staðfesta lög sem Alþingi hefur samþykkt.  Það gerði Ólafur Ragnar Grímsson árið 2004 þegar hann neitaði að staðfesta lög um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum, sem í daglegu tali eru nefnd fjölmiðlalögin.  Þá, líkt og nú, sendi Ólafur Ragnar frá sér yfirlýsingu, sem dagsett er 2. júní 2004.  Í henni reyndi Ólafur Ragnar að útskýra þá ákvörðun sína að neita að staðfesta lög sem lýðræðislega kjörið Alþingi hafði samþykkt.

Samkvæmt yfirlýsingunni byggði Ólafur Ragnar synjun sína meðal annars á því að sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar væru hornsteinar lýðræðisins.  Nauðsynlegt væri að lög og reglur sem um þá giltu þjónuðu skýrt markmiðum lýðræðisins og að víðtæk sátt þyrfti að ríkja um slík lög.  Þá hefðu deilur verið harðar um lagagrundvöll fjölmiðlanna sem Alþingi hefði samþykkt og að lagasetning um fjölmiðla þyrfti að styðjast við víðtæka umræðu í samfélaginu og að almenn sátt væri um vinnubrögð og niðurstöðu.

Ennfremur sagði Ólafur Ragnar í yfirlýsingu sinni:

,,Því miður hefur skort á samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli.  Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er fasælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.  Slíka gjá þarf að brúa.“

Nú hefur reyndar verið upplýst að ástæður þess að Ólafur Ragnar synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar hafi verið fleiri en þær sem Ólafur Ragnar tiltók í yfirlýsingu sinni hinn 2. júní 2009.  Vefritið Pressan rifjar upp merk ummæli sem birtust í ævisögu Ólafs Ragnars, Saga af forseta, en þar færir Ólafur Ragnar rök fyrir synjuninni sem ekki var að finna í yfirlýsingunni:

,,Mér var orðið ljóst að ástandið heima á Íslandi var ekki alveg með felldu.  Búið var að beygja allar stofnanir ríkisvaldsins meira og minna undir valdhroka í einum manni sem virtist einungis vera að hefja sín á hinum og þessum í þjóðfélaginu sem honum mislíkaði við.  Aldrei var að vita hvar þetta endaði ef forsetinn gripi ekki í taumana.“

Og það stóð ekki á Útrásarforsetanum.  Hann tók til sinna ráða, greip í taumana til þess að koma böndum yfir, að því er virðist einn mann, ,,hinum og þessum í þjóðfélaginu“ til mikillar ánægju.

x x x

Sú fullyrðing Ólafs Ragnars Grímssonar sem fram kemur í yfirlýsingu hans um að frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna hafi verið samþykkt með afgerandi hætti á Alþingi er í besta falli afar umdeilanleg.

Enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar studdi frumvarpið.  Það var samþykkt með atkvæðum 34 stjórnarliða.  Vitað er að allmargir þingmenn stjórnarmeirihlutans, að minnsta kosti úr röðum Vinstri grænna, greiddu frumvarpinu atkvæði sitt með semingi eða óbragð í munni.

Til samanburðar má geta þess að 32 þingmenn greiddu fjölmiðlafrumvarpinu atkvæði sitt.

x x x

Það þarf ekki að koma á óvart að þeir sem voru mótfallnir því að veitt yrði ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi bæru þá von í brjósti að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði nýsamþykktum lögum þar um staðfestingar.  Sú von hlýtur ekki síst að hafa helgast af framgöngu forsetans í fjölmiðlamálinu.

Ólafur Ragnar Grímsson skuldar þessu fólki og í raun þjóðinni allri útskýringar á því hvers vegna hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar en ekki lögunum um ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans.

Það er óþarfi að rökstyðja að Icesave-málið varðaði miklu mikilsverðari þjóðarhagsmuni en fjölmiðlamálið nokkurn tíma gerði.  Það liggur einfaldlega í augum uppi.

Engum sem fylgst hefur með framvindu Icesave-málsins dylst að mikið hefur ,,skort á samhljóminn sem þarf að vera á milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli“, svo vitnað sé til orða Ólafs Ragnars sjálfs í yfirlýsingunni sem hann gaf þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar.

Í fyrrakvöld birti fréttastofa Ríkisútvarpsins niðurstöður skoðanakönnunar Gallup sem sýndu að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna væri andvígur Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar, eða 63%.  Nýlega lét vefritið Vefþjóðviljinn sama fyrirtæki framkvæma fyrir sig skoðanakönnun þar sem viðhorf landsmanna til frumvarpsins var kannað.  Niðurstaða þeirrar könnunar, sem birt var 5. ágúst 2009, sýndi að 67,9% þjóðarinnar væri andvíg frumvarpinu.

Þá er vert að minnast þess að vikum saman hefur fjöldi Íslendinga mótmælt því á torgum um allt land að ríkið veiti ábyrgð á Icesave-samningunum.  Sérfræðingar í lögfræði, hagfræði og almennir borgarar hafa skrifað grein eftir grein í íslensk og erlend dagblöð þar sem frumvarpinu og forsendum þess hefur verið mótmælt.

Um Icesave-frumvarpið hefur aldrei ríkt sú sátt sem Ólafur Ragnar lagði svo ríka áherslu á þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar.  Harðar deilur hafa verið um þann lagagrundvöll sem ríkisábyrgðin byggir ár.  Og því fer fjarri að almenn sátt hefði náðst innan þings og utan um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu og niðurstöðu þess. 

Í ljósi alls þessa hefði forsetinn átt að átta sig á því að ,,ástandið heima á Íslandi var ekki alveg með alveg með felldu“.  Það hefði með réttu átt að renna upp fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni að mikið skorti á samhljóminn og ef nokkurn tímann hefði myndast djúp gjá milli þjóðarvilja og þingvilja, sem brúa þyrfti, þá væri það nú.

Annað hvort virðist Ólafur Ragnar ekki áttað sig á því að slík gjá hefði myndast milli þings og þjóðar í Icesave-málinu eða hann hefur ekki viljað ganga gegn ákvörðun núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs með sama hætti og hann gerði gagnvart ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hver sem ástæðan er stendur nú upp á forsetann að útskýra hvers vegna hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar en ekki frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar um ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands.

Það getur reynst Útrásarforsetanum þrautin þyngri að gefa slíkar útskýringar og þær sem fram koma í yfirlýsingu hans frá því í gær duga ekki.

Komi ekki haldbærar útskýringar frá Ólafi Ragnari er hætt við því að á milli forsetans og þjóðarinnar myndist djúp gjá sem erfitt verður að brúa.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband