Falleinkunn Samfylkingar og Vinstri grænna

Það er dálítið merkilegt að hlusta á formenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, hreykja sér af því í aðdraganda alþingiskosninga hvað minnihlutastjórn þeirra hafi náð góðum árangri á öllum sviðum.

Þegar minnihlutastjórnin var mynduð lýstu þau Jóhanna og Steingrímur því yfir að forgangsverkefni stjórnarinnar væri að slá skjaldborg um heimilin í landinu og að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.

Hvorugt hefur tekist.  Það sagði að minnsta kosti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í viðtali við útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í vikunni, þegar hann gaf ríkisstjórninni falleinkunn, en Framsóknarflokkurinn ákvað að verja minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms J. vantrausti.

Það er útaf fyrir sig sérstakt og verðugt rannsóknarefni fyrir stjórnmálafræðinga og aðra áhugamenn um stjórnmál að velta því fyrir sér hvers vegna Framsóknarflokkurinn varði ríkisstjórnina vantrausti, ríkisstjórnina sem flokkurinn sjálfur gaf falleinkunn.

Hvort sú ráðgáta verður leyst eða ekki tek ég undir með formanni Framsóknarflokksins.

Ríkisstjórnin fær falleinkunn.

Ástæðan er sú að hún hefur lítið sem ekkert gert til þess að slá skjaldborg um heimilin og til þess að koma atvinnulífinu til bjargar.

Þó svo að þau Jóhanna og Steingrímur J. noti hvert einasta tækifæri sem gefst á Alþingi, í fjölmiðlum og nú í kosningaauglýsingum, til þess að lýsa því að ríkisstjórnin standi í ströngu við að leysa þau brýnu verkefni sem við blasa þá er staðreyndin sú að árangurinn er lítill sem enginn.

Raunar er staðreyndin sú að staðan í íslensku samfélagi hefur versnað í flestu eða öllu tilliti eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum í febrúar síðastliðnum.

Hér eru nokkur dæmi sem styðja þá fullyrðingu:

  • Um 12.000 Íslendingar voru atvinnulausir þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar tók við. Nú eru um 18.000 einstaklingar atvinnulausir og hefur því fjölgað um 6.000.
  • Fyrirséð er að atvinnulausum muni fjölga hratt því ríkisstjórnin hefur lítið sem ekkert gert til að sporna við atvinnuleysi þeirra þúsunda námsmanna sem senn koma út á vinnumarkaðinn. Óskiljanlegt er hvers vegna þeim standa ekki til boða að stunda nám sitt í sumar á námslánum í stað þess að mæla götunar á atvinnuleysisbótum.
  • Laun þeirra sem enn hafa vinnu hafa lækkað.
  • Eignarhlutur fólks í fasteignum sínum hefur rýrnað.
  • Verðmæti fasteigna hefur rýrnað.
  • Skuldir heimilanna hafa hækkað.
  • Skuldir ríkisins hafa hækkað.
  • Gengi íslensku krónunnar hefur hríðfallið.
  • Fleiri bankar og fjármálastofnanir hafa fallið í tíð þessarar ríkisstjórnar en hinnar fyrri.
  • Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað.
  • Gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað.
  • Gjaldeyrishöft hafa verið hert og viðskiptafrelsi skert.
  • Vextir eru enn himinháir.

Þessi listi gæti verið mun lengri, en árangurinn er ekkert til þess að hreykja sér af, eins og gert hefur verið.

Þessi listi sýnir svart á hvítu að Samfylkingunni og Vinstri grænum hefur gjörsamlega mistekist að slá skjalborg um heimilin í landinu og koma fyrirtækjunum í landinu til bjargar, eins og að var stefnt.

Verðskuldi einhver falleinkunn, þá er það ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Og loforð sem flokkarnir setja nú á oddinn í aðdraganda kosninga ættu ekki að auka á bjartsýni heimilanna í landinu.

Þær skattahækkanir og launalækkanir sem Samfylkingin og Vinstri grænir hóta nú fjölskyldunum í landinu munu engan vanda leysa.

Þvert á móti munu þær auka vandann verulega.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband