BSRB markvisst beitt í þágu Vinstri grænna

630-220Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hefur nú um nokkuð skeið háð heilagt stríð gegn frumvarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, um sjúkratryggingar, eða allt frá því að frumvarpið kom fram á síðasta vorþingi.

Á því haustþingi sem nú stendur yfir lætur Ögmundur engan bilbug á sér finna og hamast nú gegn frumvarpi heilbrigðisráðherrans sem aldrei fyrr, en frumvarpið var tekið til umræðu á Alþingi í dag.

x x x

Á sunnudag birtist til að mynda grein eftir Ögmund í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni ,,Frumvarp um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar" þar sem Ögmundur mótmælir frumvarpinu harðlega.  Í greininni segir Ögmundur m.a.:

,, Það yrði ömurlegt hlutskipti fyrir Alþingi að leggja blessun sína yfir grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu sem reynslan hefur kennt að voru til ills. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hefur verið treyst fyrir heilbrigðisráðuneytinu. Það er vandmeðfarið verkefni. Með þeim kerfisbreytingum sem ráðherrann reynir nú að þjösna í gegnum þingið hefur hann fallið á prófinu. Endanleg niðurstaða ræðst síðan af afstöðu annarra í stjórnarmeirihlutanum. Guðlaugur Þór starfar nefnilega á ábyrgð sinna samherja á þingi, hvort sem þeir koma úr Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu."

Þess má geta að grein sama efnis birtist eftir Ögmund í Fréttablaðinu í dag.

x x x

Ögmundur Jónasson veit jafn vel og ég, og raunar allir þeir sem lesið hafa frumvarpið, að þar er ekki að finna nein áform um að einkavæða heilbrigðisþjónustuna eða heilbrigðiskerfið.  En Ögmundur lætur slík smáatriði ekki þvælast fyrir sér.  Í augum Ögmundar helgar tilgangurinn meðalið og hann virðist vera reiðubúinn til þess að gera hvað sem er til að slá ryki í augu almennings í krossferð sinni gegn frumvarpinu.

Ég skil svo sem vel að Ögmundur Jónasson og félagar hans í þingflokki Vinstri grænna noti alla þá klæki sem þeir hafa uppi í erminni til þess að klekkja á ríkisstjórninni og bregða fyrir hana fæti.

Það eru hins vegar takmörk fyrir því hversu langt menn geta gengið til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum.  Að mínu mati eru Ögmundur og félagar hans í þingflokki Vinstri grænna komnir langt út fyrir þau mörk sem eðlileg geta talist í því sambandi.

x x x

Ástæðan fyrir því að ég læt þessi orð falla er sú að mér hefur misboðið með hvaða hætti Ögmundur og Vinstrihreyfingin grænt framboð hafa markvisst beitt Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, B.S.R.B., sem Ögmundur er í formennsku fyrir, í þágu stjórnmálabaráttu Vinstri grænna.  Í raun má segja að Vinstri grænir, með þingflokksformanninn í broddi fylkingar, hafi farið með B.S.R.B. eins og deild í flokki sínum.

x x x

Í því sambandi má nefna að nýverið flutti B.S.R.B. breskan sérfræðing, Allyson Pollock, , til landsins til þess að halda erindi um breska heilbrigðiskerfið og þær breytingar sem á því hafa verið gerðar, sem hún taldi að væru sambærilegar þeim sem frumvarp heilbrigðisráðherra, sem Ögmundi er svo mjög í nöp við, kveður á um.

Fyrir þá sem ekki þekkja Allyson Pollock þá er hún vel þekkt í heimalandi sínu af vinstri væng stjórnmálanna og er í miklu uppáhaldi hjá róttækum sósíallistum í Bretlandi, ekki síst fyrir gagnrýni sína frá vinstri á störf og stefnu breska Verkamannaflokksins.

Þá er ekki langt síðan að B.S.R.B. flutti hingað til lands Svíann Göran Dahlgren til að fjalla um sömu mál, en Dahlgren þessi er sérstakur ráðgjafi stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu Víetnam um heilbrigðismál.

Nú hefur B.S.R.B. tekið sig til og gefið fyrirlestur Allyson Pollock út í bók, þar sem Ögmundur Jónasson ritar sjálfur formála og lokaorð.

x x x

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að það kostar sitt að flytja inn erlenda fyrirlesara til landsins.  Og það kostar ekki minna að gefa út heila bók um fyrirlestur hinnar bresku Allyson Pollock.

Ég veit ekki betur en að B.S.R.B. hafi greitt þann kostnað, væntanlega samkvæmt ákvörðun formannsins Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns Vinstri grænna.

x x x

B.S.R.B. eru langstærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi, en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu bandalagsins eru félagsmenn þess rúmlega 19.000 talsins.  Félagsmenn eru samkvæmt lögum skyldugir til þess að greiða félagsgjöld til samtakanna óháð pólitískum skoðunum sínum.

Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að lögbundin félagsgjöld félaga í B.S.R.B. séu notuð til þess að fjármagna stjórnmálabaráttu formanns B.S.R.B. og þess stjórnmálaflokks sem hann tilheyrir. 

Það er auðvitað varla hægt að draga aðra ályktun en þá að slík vinnubrögð viðgangist innan B.S.R.B. því að á síðustu misserum og árum hefur verið fullkominn samhljómur milli baráttumála Vinstri grænna á Alþingi og afstöðu B.S.R.B. til ýmissa umdeildra mála á vettvangi stjórnmálanna, þó svo að oft hafi verið erfitt að sjá aðkoma og afskipti B.S.R.B. að sumum þeirra hafi nokkuð með hagsmunamál launþega á vinnumarkaði að gera.

x x x

Dæmi um það er barátta forystu B.S.R.B. gegn frumvarpi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til vatnalaga sem var samþykkt sem lög frá Alþingi árið 2006.

Ögmundur Jónasson fór fremstur meðal jafningja fram í andófi sínu gegn frumvarpinu og var helsti arkitektinn að því málþófi sem þáverandi stjórnarandstaða á Alþingi blés við meðferð málsins þar innandyra.

Þingflokkur Vinstri grænna og forysta B.S.R.B. stóðu þétt við bakið á hvoru öðru baráttunni gegn vatnalögunum og í þeirri baráttu stóð B.S.R.B. meðal annars fyrir umfangsmikilli og rándýrri auglýsingabaráttu í fjölmiðlum, sem fjármögnuð var úr sjóðum þess.

Sjálfur gerði ég athugasemdir við framgöngu B.S.R.B. í aðdraganda þeirrar löggjafar.  Þá gagnrýndi ég, líkt og nú, með hvaða hætti Vinstri grænir beittu þeim launþegasamtökum sem þingflokkformaður þeirra, Ögmundur Jónasson er í forsvari fyrir, til þess að ná fram sínum pólitísku markmiðum.

Ég trúði því ekki þá, og trúi því ekki enn, að þeir félagsmenn í B.S.R.B., sem ekki styðja Vinstrihreyfinguna grænt framboð í íslenskum stjórnmálum, sætti sig við það hvernig samtökum þeirra hefur verið grímulaust beitt í þágu Vinstri grænna, áróðurslega og ekki síður fjárhagslega.

x x x

Um helgina ritaði Ögmundur Jónasson grein í Fréttablaðið þar sem hann gerði upplýsingaskyldu um hagsmunatengsl alþingismanna að umræðuefni og kallaði eftir því að um þau yrðu sett lög.

Í ljósi þess sem að ofan greinir, tengsla Ögmundar Jónassonar og stjórnmálabaráttu Vinstri grænna við B.S.R.B., má velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að Ögmundur sjálfur leggi nú fram reikninga varðandi þann kostnað sem til féll vegna ferða Allyson Pollock og Görans Dahlbergs til landsins og útgáfu fyrirlestrar Pollocks á bókarformi og upplýsi um hver stóð straum af þeim kostnaði?

Að mínu mati er full ástæða til að upplýsa um þá hluti, enda verður ekki annað séð en að í allan þennan stríðsrekstur hafi verið ráðist í þágu stjórnmálabaráttu Vinstri grænna.

x x x

Þá má geta þess, og benda Ögmundi Jónassyni sérstaklega á, að víða erlendis taka lög um fjármál stjórnmálaflokka einmitt á þessum þáttum, þ.e. á fjármögnun hagsmunasamtaka á starfsemi stjórnmálaflokka.

Það er mikilvægt að um slíka fjármögnun séu veittar upplýsingar, ekki síst þegar um er að ræða opinber hagsmunasamtök launafólks, sem fjármögnuð eru með lögbundinni greiðsluskyldu félagsmanna.

x x x

Ögmundur Jónasson og aðrir forystumenn Vinstri grænna hafa á síðustu árum gert sig gildandi í umræðum gegn spillingu og kallað ítrekað eftir siðvæðingu íslenskra stjórnmála.

Fólk getur svo velt því fyrir sér hvernig það samræmist málflutningi Vinstri grænna um siðvæðingu í íslenskum stjórnmálum að B.S.R.B. sé beitt í þágu flokksins með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

BSRB sjá fram á minnkandi tekjur þar sem starfsmenn fyrirtækja á almennum markaði í heilbrigðisþjónustu, sem selja ríkinu þjónustu sína samkvæmt frumvarpinu nýja, fara ekki í BSRB.

Það eru reyndar miklar líkur á því að þessir sömu starfsmenn verði á hærri launum en þeir fá samkvæmt kjarasamningum BSRB og ríkisins... en það skiptir engu máli ef bandalagið tapar tekjum...

Sigurður Viktor Úlfarsson, 10.9.2008 kl. 00:59

2 Smámynd: Einar Jón

Ég er á Indlandi og hef því ekki séð neitt að ráði um markmið þessa frumvarps. Erum við að stefna í átt að sjúkratryggingakerfi USA, eða ofursjúkrahúsum fyrir þá ríku sem keyrt er samhliða fjársveltu ríkiskerfinu, eins og þar sem ég er staddur?

Fyrst menn telja kosti laganna ótvíræða og að þjónusta við sjúklinga muni ekki skerðast, getur þá ekki einhver fylgismaðurinn á þingi tekið saman helstu punktana í þessum lögum, hugsanlega kosti og galla, og helstu ástæður fyrir mótmælum VG?

Sigurður V. er með ágætis punkt, en það hýtur að hanga meira á spýtunni.

Einar Jón, 10.9.2008 kl. 04:54

3 identicon

Vg er sem flokkur dæmigerður fyrir þá ríkisforsjártrú, sem einkennir lærisveina Marx og Lenins og þeirra fósa allra. Mætti ég minna á hvernig BSRB hefur tekist undursamlega að gjörnýta fréttastofu RÚV-hljóðvarps. Það er hinsvegar afar lævíslega og kunnáttusamlega gert, fólki sem er ekki mjög gagnrýnt í hugsun gæti fundist fréttaflutningurinn óhlutdrægur og vandaður. En áróðurinn felst í því að hlaupa til og birta allt sem fyrrverandi samstarfsmaður og núverandi forystumaður í kjaramálunum segir þeim að gera. Meðal annars boðskap þessarar bresku Allyson, svo félegur sem hann er. Það má skrifa langt mál um hvernig ríkisstarfsmenn nota RÚV til að móta skoðanir almennings um ríkisrekstur. Við því er ekki nema eitt ráð; Hætta að reka þetta andskotans ríkisútvarp. Það er meira en tímaskekkja, það er móðgun við heilbrigða skynsemi.

Ellismellur (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 09:11

4 identicon

Þarna er Sigurður Kári að rugla saman fjárhagslegum einkahagsmunum og samhengi í baráttu verkalýðsfélags og stjórnmálasamtaka. Meirihluti þjóðarinnar er á móti einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, en þetta frumvarp er liður í undirbúningi þess. Þegar einkavæðing hefst, munu félagar Sigurðar Kára hagnast. Þeir munu síðan fjármagna stjórnmálabaráttu Sigurðar Kára. Engum dettur í hug að fjárútlát BSRB séu ákveðin af formanni samtakanna. Það er stjórn samtakanna sem ákveður slíkt, eins hvort rétt sé að flytja inn fyrirlesara, sem kunna að vera á annarri skoðun en Sigurður Kári og vinir hans auðmennirnir sem hyggjast græða á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins

Þórður S (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:20

5 Smámynd: Einar Jón

Árni:
Hvaða máli skiptir nafnið? Ef menn eru að bulla þá eru þeir að bulla, hvort sem þeir kvitta sem Jólasveinninn eða undir fullu nafni. Sama gildir ef rökin eru góð.

Ertu einhverju bættari að vita hvað "Ellismellur" heitir, eða að ég er Gunnarsson?

Einar Jón, 11.9.2008 kl. 07:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband