Starfshættir skóla og kristin arfleifð

Á sunnudaginn birti ég pistil hér á síðunni þar sem ég gerði grein fyrir því að menntamálanefnd Alþingis hefði á föstudaginn fyrir viku afgreitt fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við skólana.

Eins og fram kom í pistli mínum leggur nefndin til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði, eins og gert er í núgildandi lögum um leikskóla og grunnskóla.

Þessi pistill minn vakti mikla athygli og var eftir því óskað að ég myndi gera grein fyrir því hvaða breytingar nefndin gerði á markmiðsákvæði frumvarpanna og á hvaða forsendum þær breytingar byggðu.

Mér er bæði ljúft og skylt að verða við þeim óskum, en taldi ekki sæmandi að gera það fyrr en breytingatillögurnar hefðu verið lagðar formlega fram á Alþingi.  Sú framlagning átti sér stað í gær.

x x x

Markmiðsákvæði 2. gr. frumvarpsins um grunnskóla hljóðaði með eftirfarandi hætti þegar það var lagt fram á Alþingi í vetur:

,,Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
    Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
    Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda."

Eftir breytingar menntamálanefndar á markmiðsákvæðinu hljóðar það svo:

,,Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
    Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
    Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda."

Breytingatillögur okkar eru feitletraðar í textanum hér að ofan.

x x x

Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar er gerð nokkuð ítarleg grein fyrir þeirri breytingu sem við leggjum til og mælir fyrir um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar, ásamt öðrum þeim þáttum sem ákvæðið mælir fyrir um.

Í nefndarálitinu segir um þetta atriði:

"Í 2. gr. frumvarpsins er að finna markmið þess. Segir þar að í samvinnu við heimilin sé það hlutverk grunnskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Í 2. málsl. 1. mgr. er svo tilgreint að starfshættir grunnskólans skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Mikil umræða átti sér stað í þjóðfélaginu sem og innan nefndarinnar um þetta ákvæði frumvarpsins. Sneri sú umræða fyrst og fremst að þeirri breytingu að hugtakið „kristilegt siðgæði“ var fellt brott úr markmiðsgrein gildandi laga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 66/1995. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að fyrrgreint orðalag er fellt brott í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum og í samræmi við ábendingar ýmissa aðila. Því sjónarmiði hefur þó verið hreyft fyrir nefndinni að meiri hluti innflytjenda til landsins er kristinnar trúar.  Í athugasemdum við greinina segir jafnframt að hugtökin umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi séu kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði og komi í stað þess orðalags.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu var á tíðum vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og annarra gegn Noregi. Í því máli voru málavextir þeir að í norsku námskránni fyrir grunnskóla voru árið 1997 sameinaðar tvær námsgreinar, kristinfræði og lífsskoðanir, í kristindómsfræðslu með innsýn í trúarbrögð og lífsskoðanir. Samkvæmt norskum lögum var heimilt að fá undanþágu frá þessari grein hvað varðar þá þætti kennslunnar sem ekki samrýmdust trúarbrögðum og lífsskoðunum viðkomandi og gætu talist iðkun annarrar trúar.

Kærendur í máli þessu voru meðlimir í félagi húmanista í Noregi og óskuðu þeir eftir því að börn sín fengju undanþágu frá allri kennslu í þessari nýju kennslugrein. Þeirri beiðni var hafnað. Töldu foreldrarnir að á sér væri brotið og vísuðu í 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi, 2. gr. samningsviðauka nr. 1 um rétt til menntunar, 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 14. gr. samningsins um bann við mismunun. Byggðu þeir mál sitt á því að þeim væri meinað að tryggja börnum sínum menntun í samræmi við trúarskoðanir þeirra og samvisku. Enn fremur væri lögð aukin fyrirhöfn á þá foreldra sem aðhylltust aðra trú en kristni enda hefðu kristnir foreldrar í raun ekki ástæðu til að sækja um sambærilega undanþágu.

Dómstóllinn bendir á í dómi sínum að þyngri áhersla er lögð á kristinfræði en önnur trúarbrögð og að ákveðið ójafnvægi ríki þar á milli. Hann telur þó að slíkt sé eðlilegt þegar tillit er tekið til stöðu kristni í Noregi, en hin evangelíska-lúterska trú er ríkistrú Noregs sem um 85% landsmanna aðhyllast. Kemur ekki fram í dómnum að slíkt brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Álítur nefndin því að það fari ekki í bága við ákvæði sáttmálans að ríki meti og ákveði innihald námskrár sinnar með tilliti til kristinnar trúar.

Dómstóllinn taldi aftur á móti að jafna yrði þetta ójafnvægi milli stöðu kristninnar og annarra trúarbragða og synjun um algera undanþágu frá kennslu í hinni nýju námsgrein bryti í bága við 2. gr. 1. viðauka samningsins. Telur nefndin aftur á móti rétt að benda á að dómstóllinn vísaði frá kæru foreldranna um takmarkaða undanþágu frá kennslugreininni á grundvelli þess að kæruleiðir í Noregi voru ekki tæmdar áður en málið kom til dómstólsins. Kvað dómstóllinn því ekki upp úr um hvort sú leið sem farin var í Noregi hvað varðar heimild til takmarkaðrar undanþágu bryti í bága við sáttmálann. Aftur á móti fjallar dómstóllinn mikið um ferli þess að fá slíka undanþágu og telur það bæði vera flókið og óskilvirkt sem og að undanþáguheimildirnar séu þröngar en einungis var hægt að fá undanþágu frá þeim þáttum sem foreldrar töldu vera þátttöku í trúariðkun eða trúarlegum athöfnum. Það sem eftir stendur að mati nefndarinnar er að dómstóllinn kvað ekki upp úr um að Norðmenn þyrftu að breyta markmiðsgrein sinni þar sem vísað var til þess að stuðla skyldi að „kristilegu siðgæði og uppeldi“.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir og þess hversu mjög íslensk saga, menning og þau gildi sem íslenskt þjóðfélag byggist á eru samofin hinni kristnu arfleifð íslenskrar menningar, telur nefndin rétt að tekið sé mið af þeirri staðreynd í markmiðsgrein frumvarpsins og leggur til breytingar á henni. "

x x x

Vegna athugasemda þeirra sem telja að með því að mæla fyrir um í lögum að starfshættir skóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar sé með einhverjum hætti brotið gegn rétti þeirra sem ekki eru kristinnar trúar, þá er rétt að benda á eftirfarandi:

Markmiðsákvæði frumvarpsins kveður ekki einungis á um að starfshættir skóla skuli mótast af kristinni arfleið íslenskrar menningar.  Jafnrétti, umburðarlyndi, kærleikur, ábyrgð, umhyggja og virðing fá þar einnig sinn verðuga sess.

Þá kveður jafnræðisregla stjórnarskrárinnar á um að óheimilt sé að mismuna fólki eftir kyni, litarhætti, trúarskoðunum, þjóðerni og fleiri þáttum.

Það er mikilvægt að hafa ofangreind atriði í huga í þessari umræðu.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn er bara ekki lengur alvöru hægri flokkur, heldur útvatnað miðjumoð.

rip.

LS (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 16:10

2 identicon

Sá dagur kemur sjálfsagt aldrei að ég verði flokkaður sem pólitískur samherji þinn. En - mér finnast þessar tillögur góðar, hver maður á að fá að njóta sannmælis, nái þetta fram að ganga þá ertu að gera góða hluti hér.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 21:12

3 Smámynd: Elías Theódórsson

Mér skilst að þið ætlið að halda því inni að leikskólakennarar þurfi 5 ára háskólanám, svokallað meistaranám. Hvað með foreldra sem kjósa að ala upp sín börn sjálf, verða þau krafin um háskólamenntun? og svo dagmæður, mega þær eiga von á kröfu um háskólapróf? 

Elías Theódórsson, 16.5.2008 kl. 21:50

4 identicon

Starfshættir skóla skulu mótast af kristinni arfleifð. Þýðir þetta að að kennsla hefjist með bæn, nemendur fari reglulega til messu, syngi sálma o.s.frv.? Eða þýðir þetta að skólastjóri skuli hegða sér sem biskup í samskiptum við hitt kynið og kennarar sem prestar og pastorar gagnvart börnum? Við vitum hversu mikil blessun getur verið því samfara. Á að taka upp hýðingar, hengingar, drekkingar, bannfæringar, Stóra dóm? Kristni var komið á með ofbeldi (hótunum og gíslatöku). Siðaskiptin urðu er biskup var hálshöggvinn með sonum sínum. Allt er þetta hluti af kristnum menningararfi.

Þessi hrákasmíð og klambur er fyrst og fremst til að þóknast þeim sem eru haldnir þeirri ranghugmynd að siðgæði landans fari fjandans til ef ekki er minnst sérstaklega á kristnina í lögunum. Ákvæðið um "kristilega siðgæðið" kom þó fyrst inn í lögin 1974.

Eins og sést á "rökstuðningi" nefndarinnar rugla menn hér saman námskrá og lögum, námsefni og starfsháttum. Þetta er grátlegt.

Nái þessi ósköp inn í frumvarp og síðar lög er verr farið en heima setið og kristnum tekst enn einu sinni að ota sínum tota og valta yfir alla aðra, sem er auðvitað vel í anda kristilegs siðgæðis í raun.

Reynir Harðarson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 22:22

5 identicon

Nú er spurt Sigurður Kári.

Af hverju í ósköpunum voruð þið að breyta upprunalega textanum?

Hann er bara svo miklu skýrri og betri en sá síðari.

Óskiljanlegt er af hverju þarf að setja sérstaklega inn í lagatexta orðalag um kristna arfleifð og lærdóm í íslensku. Hefur þetta ekki verið námsefni í íslenskum grunnskólum fram að þessu?

Þetta er svona álíka og að setja lög um að allar grænar baunir skuli vera grænar.

Fáránlegt... og eiginlega löggjafanum til hreinnar háðungar.

Eitt sinn sagði góður maður, "báknið burt", nú berjast menn við að byggja upp ofstjórn á Íslandi sem ESB gæti verið stolt af.

Kveðja

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 22:48

6 Smámynd: Egill Óskarsson

Elías, kennarar sjálfir hafa viljað taka upp m.ed/m.a kröfurnar í mörg ár. Skil ekki alveg hvað foreldrar eða dagforeldrar koma þessu máli við.

Egill Óskarsson, 17.5.2008 kl. 01:08

7 identicon

Er þessi athugasemd um kristna menningararfleið til þess að koma til móts við þá sem óttuðust um kristinfræðina og, ef svo er, ætti hún þá ekki frekar heima í aðalnámskrá? Semsagt "sérstök áhersla skal lögð á fræða nemendur um kristna menningararfleið Íslendinga"? Hún virðist allavega vera mjög undarleg þarna í lögum um starfshætti skóla.

Óli (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 01:41

8 Smámynd: Haraldur Davíðsson

 Sigurður ertu ekki með? Hefur þér sýnst það vera heppilegt að blanda saman trúarbrögðum og stjórnmálum? Við kærum okkur ekki um slíkt. Hvað var að orðalaginu fyrir breytingu? Og hvernig réttlætirðu þetta fyrir þeim sem ekki kæra sig um kristni en vilja vera stoltir þegnar þessa lands. Þetta er forneskjuleg hugsun, og það er sorglegt að sjá þetta koma frá manni sem er fæddur eftir aldamótin 1900. Engin blanda trúar og stjórnmála gengur upp. Því fylgir UNDANTEKNINGALAUST ofbeldi og flokkadrættir í samfélaginu. Og hér í allri okkar smæð þá viltu deila okkur niður í andstæðar fylkingar. Það var þá stjórnviskan! FRIÐUR ( án afskipta klerkanna).

Haraldur Davíðsson, 17.5.2008 kl. 11:59

9 identicon

Það er nokkuð ljóst að xD eða ætti ég að segja krossD fær aldrei mitt atkvæði aftur, þessi flokkur sýnir aftur & aftur að hann ber enga virðingu fyrir neinu nema sjálfum sér.
Takk fyrir að hrækja í andlit þeirra sem eru ekki í þjóðkirkjunni, takk fyrir að sýna okkur hvað kristilegt siðgæði er.

DoctorE (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 13:38

10 identicon

Er ekki jólahald og fermingar + hvítasunnuhelgin já og Páskar, glöggt merki um Kristilega arfleið landsins . Eru þeir sem berjast á móti Kristnifræði í skólum kannski á leiðinni að banna ofangreindar hátíðir, svo að örfáir útlendingar af öðrum trúarbrögðum verði ekki fyrir barðinu á Kristilegri menningu ?

conwoy (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 13:44

11 identicon

Sorry conwoy, þetta eru stolnar hátíðir; ég held upp á jól undir öðrum formerkjum en kristnir.
Sigurður sér nú að hann er að púkka undir fordóma manna eins og conwoy, vonandi nær Sigurður að kveikja á perunni við að lesa skrif hans.

DoctorE (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 14:16

12 identicon

Allt samann stolnar hátíðir ?

Skiftir engu . Það tengja allir þessar hátíðir við Kristni . Tilraunir siðmennt til að gera þær að ókristnum fyrirbærum eru sorglega fyndnar svo ekki sé meira sagt !

conwoy (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 14:39

13 Smámynd: Óli Jón

Birtist slæm staða Ríkiskirkjunnar í þessu krampakennda viðbragði háttvirts alþingismanns? Er hún virkilega svo illa stödd í þjóðfélagi voru að áfram þurfi að lögfesta aðgang hennar að leikskóla- og grunnskólabörnum? Ég þykist reyndar vita svarið og fæ það staðfest með þessu.

Hverju höldum við inni úr kristinni arfleifð þjóðarinnar og hverju sleppum við? Það er margt afar slæmt í þessari arfleifð þótt margir kjósi að líta fram hjá því. Hvernig eru starfsmenn leik- og grunnskóla bættari með þessari illa skilgreindu viðbót.

Ef við skoðum upptalninguna, í hverja búið er að þvæla þessari viðbót, kemur í ljós að hún er öll mjög skýr og skorinorð fyrir utan viðbótina:

  • umburðarlyndi (skýrt)
  • kærleikur (skýrt)
  • kristin arfleifð íslenskrar menningar (óskýrt)
  • jafnrétti (skýrt)
  • lýðræðislegu samstarfi (skýrt)
  • ábyrgð (skýrt)
  • umhyggja (skýrt)
  • sáttfýsi (skýrt)
  • virðing fyrir manngildi (skýrt)

Hvernig er hægt að réttlæta það að þynna út þessa lagagrein með þessari skelfilegu og óskýru viðbót? Er það markmið löggjafans að semja óskýr og vond lög? Er það sérstakt markmið löggjafans að setja inn ákvæði sem ekki er hægt að túlka með hlutlægum hætti? Ég hef vorkunn með kennurum sem ætla að fara eftir þessu ákvæði og þurfa að leggja mikinn tíma í að finna út hvernig eigi að túlka það. Ég hef vorkunn með leikskólabörnunum sem ekki munu geta varið sig gegn dulbúnu trúboði í skólanum sínum. Það er augsýnilega ekki lengur treyst á að börnin komi til kirkjunnar lengur, þótt þeim sé ekki bannað það, heldur skal farið út og náð í þau með öllum ráðum!

Ég hef þó mesta vorkunn með kristinni trú fyrst hún þarf á þessari meðgjöf að halda. Illa hlýtur að vera ástatt fyrir henni fyrst svo er!

Óli Jón, 17.5.2008 kl. 15:08

14 identicon

Almenningur er duglegur að rölta í kirkjurnar til að láta skíra börnin til trúar á Jésú Krist, og fullkomnar svo uppátækið með því að láta ferma þau líka . Svo eru keypt páskaegg handa þeim alla páska, og sagt frá krossfestingu . En þegar kemur að því að nefna eitthvað um þennann umdeilda náunga Jésú í skólum, bregðast menn dýrvitlausir við og vilja alls ekki að hann sé nefndur þar á nafn . Oft er spurt, en aldrei er því svarað : Hvað er hættulegt við það sem Jésú boðaði fyrir ungar og óvarðar barnssálir ? Á meðann engin svör koma við þeirri spurningu, er það með öllu óþarft að banna eitthvað innann skólaveggja er gerir barnssálinni ekkert mein . Eða er það eitthvað hollara fyrir barnsálina að læra um þróunarkenningu, er segir þeim það eitt að það sé tilviljun án tilgangs, og sál þeirra eigi varla von um tilvist nema til c.a 88 ára eða svo ? Trú á Jésú krist opinberar fyrir þeim, að sál þeirra deyr aldrei . Er það mannskemmandi að gefa einstaklingi / barni svoleiðis von ?

conwoy (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 16:51

15 identicon

Hvað er hættulegt við að kynna börnum stefnu Framsóknarflokksins? Á meðan því er ósvarað legg ég til að skólastarf skuli mótast af menningarlegri arfleifð Framsóknarflokksins og börnum uppálagt að læra og tileinka sér stefnu hans, þekkja helstu leiðtoga Framsóknarflokksins og fara í reglulegar ferðir á flokksfundi.

Reynir (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 17:48

16 identicon

Getur Framsóknarflokkurinn umvafið kjósendur sína með kærleik og umhyggju ?

Hef sjaldan séð nein merki í þá áttina . 

conwoy (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 18:16

17 identicon

Opin lög um fræðsluskyldu eru mun eðlilegri en að lögfesta enn einu sinni svona miðstýrðan sósíaldemókratískan hugmyndafræðivelling. Það er talað svo mikið um kærleika, jafnrétti og þess háttar að þetta plagg gæti verið frá Sovétríkjunum!

Af hverju einkavæðið þið þetta ekki bara? Nær væri að lækka skatta og gefa þetta frjálst. Ef nemendur stæðust flestir samræmd próf mætti það einu gilda hvaða aðferðir viðkomandi skólar notuðu, kristilegar eða öðruvísi. Og foreldrar fengju að ráða því hvort þeir veldu börnum sínum skóla þar sem einhver trúarbragðaskoffín fá að vaða uppi.

Úlfur (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 12:21

18 Smámynd: Böðvar Ingi Guðbjartsson

Sæll Kári.

Það er magnað að lesa sumar athugasemdirnar sem þú færð út af þessari grein þinni. Margir sem tjá hug sinn út af þessu eru með fordóma í garð Kristinnar trúar. Ísland er kristin þjóð og búin að vera það í yfir 1000 ár. Enda er það í Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands að ríkistrú Íslendinga er Kristin trú. Þessar raddir í þinn garð eru ekki nýjar á nálinni og vill ég því gefa þér smá andlegt nesti: 

Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða. ( 2 Tím. 3:12 Biblían 1981 )

Guð......sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. ( 1 Tím. 2:4 Biblían 1981 )

Í þessu færðu minn stuðning og vill ég því færa þakkir fyrir afstöðu þína.

Böðvar Ingi Guðbjartsson, 20.5.2008 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband