Eitt og annað

Þau tímamót urðu í starfi okkar sem sæti eigum í menntamálanefnd Alþingis á föstudag að við afgreiddum fjögur frumvörp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og menntamál kennara og skólastjórnenda.

Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta.  Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.

Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.

x x x

Það er stór dagur í enska boltanum í dag, en þá ræðst það hvort lið Manchester United eða Chelsea verður Englandsmeistari.

Sjálfur hef ég haldið með Manchester United frá barnæsku og vonast því eftir sigri minna manna.

x x x

Forsíðuviðtal sunnudagsblaðs Morgunblaðsins er með frekar óvenjulegum hætti þennan sunnudaginn.  Á þeim bænum er forsprakki hljómsveitarinnar Mercedez Club, Egil Gillzenegger, í viðtali þar sem hann sakar Íslendinga um að misskilja Júróvision.

Það er óætt að mæla með viðtalinu við Gillzenegger.  Það er bráðfyndið og sýnir hversu mikill húmoristi viðmælandi Morgunblaðsins er.

x x x

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, var valinn Evrópumaður ársins á afmælisdegi mínum, hinn 9. maí sl.  Björgvin er vel að titlinum kominn enda ötull talsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Við val á Evrópumanni ársins hljóta nöfn Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, og Jóns Sigurðssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins, að hafa komið til álita, en Jón hefur á stuttum tíma skrifað tvær greinar í Morgunblaðið þar sem hann skorar á íslensk stjórnvöld að láta strax til skarar skríða og sækja um aðild.

Framganga þeirra Jóns og Valgerðar hefur vakið athygli og sett formann flokksins, Guðna Ágústsson, í erfiða stöðu.

Þá má efast um að málflutningur þeirra tveggja sé til þess fallinn að styrkja stöðu Framsóknarflokksins, þó ekki veitti honum af þessi misserin, enda munu kjósendur ekki kjósa Framsóknarflokkinn vegna afstöðu hans til Evrópumála.

Þar skipta aðrir þættir meira máli.

Sigurður Kári.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður. Varðandi hið kristilega siðgæði í grunnskólafrumvarpinu.
Leggið þig til breytingu á þvi frá því sem var í frumvarpinu í byrjun?
Og ef svo er, í hverju er sú breyting fólgin?

Guðmundur Jónas Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 12:58

2 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Sigurður Kári, ertu virkilega að gefa í skyn að "kristilegt siðgæði" verði áfram hluti af grunnskólalögum?

Matthías Ásgeirsson, 11.5.2008 kl. 16:48

3 Smámynd: Óli Jón

Það er skelfilegt ef það á að þvæla þrúgandi og vondu ákvæði um 'kristilegt siðgæði' aftur inn í frumvarpið. Ef rétt er þá eiga kirkjunnar fólk og trúaðir alla mína samúð því ljóst er að þeirra málstaður þarf á allri þeirri meðgjöf að halda sem hann getur mögulega fengið. Verst er að þetta kemur frá fulltrúa þess stjórnmálaafls sem telur sig mæla fyrir frelsi einstaklingsins. Einkavæðum heilbrigðiskerfið, en ríkisvæðum trúna! Ótrúlega sorglegt og ógeðfellt.

En segir þetta ekkki mest um stöðu trúarinnar hér heima? Hún virðist augsýnilega ekki geta staðið í lappirnar óstudd! Svo mikið er ljóst!

Óli Jón, 11.5.2008 kl. 18:39

4 identicon

Alveg er það merkilegt að allir helstu frjálshyggjupostular landsins eru á móti frelsi í hugsun þegar að kemur að trú.

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 19:18

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll Sigurður Kári, þú segir ákvæði sem ollu miklum deilum. Að láta hátt í sér heyra - eru það deilurnar sem þú vísar til? Og ertu þá að segja að það skipti máli til hvaða hóps maður tilheyri svo á sé hlustað, er betur hlustað eftir háværum röddum úr kirkjunni en frá almenningi eins og mér? Nú hef ég ekki séð allar umsagnir sem bárust um frumvörpin en ég er forvitin að vita hversu margir gerðu athugasemdir við að ákvæðið um kristilega siðgæðið félli út úr lögunum og hversu margir fögnuðuð því. Þar sem þú ert búin að segja A væri gott að þú segðir líka B og upplýstir alþjóð um hvernig markmiðsgreinin hljómar nú. Bæði í leik- og grunnskóla.

Kristín Dýrfjörð, 11.5.2008 kl. 19:47

6 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sigurður Kári. Grafalvarleg fyrirspurn.

1. Hvaða breytingar er verið að gera á frumvörpunum sem þú nefnir?

2. Að kröfu hverra / í ljósi umsagna hverra?

3. Skýrt: Er verið að setja inn óskilgreinda hugtakið "kristilegt siðgæði" inn aftur og taka út hugtakaupptalninguna um umburðarlyndi o.s.frv.?

4. Ef þetta eru breytingarnar; er öll nefndin og/eða báðir stjórnarflokkarnir sammála um þær?

5. Ef þetta eru breytingarnar, voru réttlætingarnar hjá menntamálaráðherra fyrir fyrri breytingaáformum markleysa?

6. Hvað er "kristilegt siðgæði" og hvernig er það frábrugðið almennu góðu siðferði? 

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 20:04

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

NÝJASTA NÝTT. Þótt Sigurður Kári sé ekki búinn að svara lykilspurningum á bloggi sínu um þetta mál þá hef ég fengið lýsingar annars nefndarmanns úr menntamálanefnd.

það er ekki verið að setja inn í frumvörpin (markmiðsgreinar skólalaga) aftur ákvæðið um kristilegt siðgæði. Vegna gráturs og gnístran tanna sumra varð til "lending" sem felst í því að setja inn í markmiðsgreinarnar setningu um hina kristnu arfleifð, en annars er siðgæðið miðað við fyrrtalda upptalningu; umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Hið óskilgreinda hugtak er því ekki á leið inn, en hins vegar áréttuð áherslan á Íslandi á hina kristnu arfleifð. Þarna er heilmikill munur á í mínum huga, því eins og ég hef fyrr sagt þá hlýtur trúarbragðakennsla á Íslandi að leggja hvað mestu áhersluna á einmitt hina kristnu menningararfleifð - annað er óhjákvæmilegt. Og auðvitað erum við að tala um fræðslu en ekki trúboð.

Hafi ég skilið lýsingarnar rétt er því engin grundvallarbreyting að eiga sér stað á þeim breytingum sem menntamálaráðherra boðaði, aðeins fyrst og fremst verið að rétta ákveðnum öflum dúsu. Sjáum það betur þegar breytingatillögur menntamálanefndar verða lagðar fram.

Þetta kann hins vegar að vera of mikil eftirgjöf fyrir fólk sem er róttækara gagnvart trúarbrögðum en ég, þ.e. þeirra sem vilja alls enga tilvísun til ákveðinna trúarbragða, þótt nú sé talað um arfleifð en ekki siðgæði. Ég geri þónokkurn greinarmun þarna á milli en það gera kannski ekki Matti og félagar í Vantrú eða t.d. talsmenn annarra skipulagðra trúarbragða en kristninnar. Munurinn liggur kannski í því hvort fólk er á móti trúarbrögðum eða ekki. Ég er ekki á móti trúarbrögðum heldur fyrst og fremst á móti forréttindum tiltekinna trúarbragða - er gegn mismunun milli trúarbragða.

Óljós bloggfærsla Sigurðar Kára verður að teljast klaufaleg í ljósi þessa, því það er erfitt að skilja hana nema á einn veg.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 11:55

8 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sigurður Kári; þrátt fyrir síðasta innlegg frá mér þá standa spurningarnar í innlegginu á undan, svo langt sem þær ná...

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 11:57

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Sigurður Kári

Ég vona innilega að þið Þorgerður Katrín standið í báða fætur með þetta frumvarp eins og þið lögðuð af stað með það.  Það verður seint of oft lögð áhersla á það að lög þessa lands geta ekki og mega ekki draga taum eins trúfélags eða lífsskoðunarfélags.  Sama gildir um alþjóðalög og mannréttindayfirlýsingar.  Um þær getur aldrei orðið eining og friður ef þær eru merktar einni humyndafræði, sama hversu góð hún er.  Til að tryggja einingu, jafnrétti og hlutleysi verða lög að innihalda einungis gildin sjálf eða reglur til að ná markmiðum þeirra, t.d. lýðræðislegt samstarf.  Lög mega ekki vera merkt sérstökum félögum í þjóðfélaginu og gildir einu hvers stór eða smá þau eru.  Mannréttindi ganga ekki út á meirihluta eða minnihluta.  Þau eru algild og hvert brot á þeim er rangt og svívirðilegt sama hveru mikill fjölda manna stóð að því að brjóta á þeim. 

Það er sök sér að bæta inn einhverju um kristna arfleifð í tengslum við þær áherslur sem eigi að vera í kennslu um lífsskoðanir og trúarbrögð í skólum í Aðalnámsskrá, en hins vegar ætti að varast að setja inn of sértæka hluti í lög.  Að minnast aðeins á arfleifð eins hóps lífsskoðunar eða trúar, jafnvel þó algerlega yfirgnæfandi hafi verið í sögu landsins er ekki við hæfi í lagagerð.  Færum við að minnast á sögu Sjálfstæðisflokksins í lögum? T.d. í lögum um verslun og viðskipti, þar sem flokkur þinn hefur jú haft talsverð áhrif.  Væri við hæfi að gefa Sjálfsstæðisflokknum sérstök sérréttindi og heiðursstall í lögum af því að flokkurinn hefur verið sá stærsti á Íslandi?  Ætti að minnast á arfleifð hans í Grunnskólalögunum?  Nei því lög verða að ganga út frá samnefnurunum og miða að því að koma ákveðnum markmiðum til skila, ekki upphefja ákveðna hópa í þjóðfélaginu.

Vonandi eru þetta óþarfa áhyggjur.  Ég set traust mitt á ykkur.

Svanur Sigurbjörnsson, 12.5.2008 kl. 14:29

10 identicon

Sigurður Kári. Kristin arfðleifð er margvísleg og er bæði góð og vond eins og gerist í öllum trúarbrögðum. Brennur á galdrafólki og trúvillingum tilheyra þannig kristinni hefð, enn fremur aftökur á samkynhneigðum, gyðingum og ýmsum minnihlutahópum. Hefðin, arfleifðin, er þannig verri en trúin eins og gerist með öll trúarbrögð.

Fari  Friðrik þór með rétt mál í bloggi sínu sýnsit mér nefndin þannig vera að fara úr öskunni í eldinni og ekki langt að bíða að breyta þurfi markmiðsgreininni aftur. Hvernig væri að gera það strax? T.d. með því að segja sem svo: "Skólinn á að stuðla að því að nemendur læri sögu íslenskrar menningar, þar á meðal trúarlegrar" (Sem málamiðlun mætti e.t.v. til að milda biskup og háværa liðið hans setja orðiið kristilegur í stað trúarlegur, ég mæli þó ekki með því).

Annars má e.t.v. réttlæta orðin "kristleg arfleifð" með því að kennarar leggi áherslu á að kenna allt það neikvæða í kristinmni hefð. Af nógu er að taka. E.t.v. er það meining nefndarinnar?

 Gísli Gunnarsson

Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 15:12

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hér er hluti af kristinni arfleifð: Hið geistlega vald hirti urmul jarða af fólki gegn loforði um himnaríkisvist. Auðvitað veit enginn hvort loforðin voru efnd. Þennan illa fengna feng notaði kirkjan sem skiptimynt í samkomulaginu fræga 1907, þegar kirkjan skilaði jörðum en fékk í staðinn veglega fjárveitingu á ári hverju - nú í yfir 100 ár.

Önnur og betri arfleifð; prestar fór um alla sókn sína, reyndu að hjálpa, skráðu íbúa og kunnáttu þeirra og margir þeirra voru sóknum sínum algerlega ómetanlegir. Sumir voru hins vegar kolbrjálaðir og sífullir og sídrýgjandi hór. Arfleifðin er af ýmsum toga. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 15:50

12 identicon

Mér flögrar, ef það verður staðan að kristilegt siðgæði verður áfram í frumvarpinu. Þetta þýðir að börnin mín eru ekki velkomin í íslenskan grunnskóla. Það er með öllu óþolandi að einstaklingar þurfi að sitja undir kristilegu þvaðri í tíma og ótíma, þeir foreldrar sem vilja að börnin þeirra verði gegnsósa af 2000 ára gömlum sögum sem halda ekki vatni þá geta þeir bara sjálfir séð um það og sett börnin sín í sunnudagaskóla. ,,Látið mín börn í friði" eru mín skilaboð til þín Sigurður Kári.

Valsól (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 20:48

13 identicon

Vilja menn trúarbragðastríð hér, vilja menn að aðrir trúarhópar setji sína eigin skóla.
Þeir sem aðhyllast islam eða annað eiga klárlega rétt á að vera með grunnskóla fyrir sín börn.
Hallelúja íslenskir stjórnmálamenn ætla að apa vitleysuna eftir erlendum starfsfélögum sínum.

Þvílíkt og annað eins, menn eru ekki normal

DoctorE (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband