Sigurður Líndal hefur lög að mæla

Minn gamli prófessor, Sigurður Líndal, skrifar afdráttarlausa og skýra grein í Fréttablaðið í dag, undir yfirskriftinni ,,Stjórnlagaráð - til upprifjunar".

Þar fjallar hann um þá tillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um að skipað verði stjórnlagaráð í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til stjórnlagaþings.

Í grein sinni segir Sigurður:

"Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skal Hæstiréttur skera úr um gildi kosninga fulltrúa á þingið. Þetta gerði Hæstiréttur með ákvörðun 25. janúar 2011 og lýsti kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 ógilda.

Ákvörðun Hæstaréttar verður ekki hnekkt og með lagasetningu sinni fól Alþingi æðsta handhafa dómsvaldsins endanlegt úrskurðarvald Ákvörðun Hæstaréttar er því í reynd hæstaréttardómur eða að minnsta kosti ígildi slíks dóms.

Nú liggur fyrir þingsályktun um að skipa 25 manna stjórnlagaráð og binda skipun þeirra og varamanna við þá sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings eða með öðrum orðum binda kjörið við hóp manna sem hlutu ógilda kosningu og eru því umboðslausir.

Með þessu er Alþingi í reynd að fella ákvörðun Hæstaréttar úr gildi og ganga inn á svið dómsvaldsins.

Jafnframt virðir Alþingi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins og brýtur þannig gegn stjórnarskránni, eða að minnsta kosti sniðgengur hana. Um leið ómerkir þingið eigin ákvörðun um að fela Hæstarétti endanlegt ákvörðunarvald.

Ekki bætir úr þótt einhverjar málamyndabreytingar séu gerðar á hlutverki stjórnlagaráðs frá því sem ákveðið var um stjórnlagaþing.

Það má svo sem segja að þetta sé í samræmi við það sem nú tíðkast í umgengni við lög og reglur, jafnt í stjórnmálum sem atvinnulífi.

En gott væri að þeir sem hyggjast taka sæti í stjórnlagaráði hugleiddu stöðu sína og þá jafnframt hvort þetta sé gæfuleg byrjun á því að setja nýja stjórnarskrá."

Sigurður Líndal hefur lög að mæla.

Óskandi væri að alþingismenn og ráðherrar tækju mark á þessum skrifum prófessorsins.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband