Þingmaður Framsóknarflokksins snýst í hringi

Ekki eru þær burðugar útskýringarnar sem Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, býður upp á þegar hann reynir að rökstyðja hvers vegna hann ákvað að vera ekki flutningsmaður eigin tillögu og nokkurra annarra þingmanna um ,,stjórnlagaráð".

Höskuldur var einn þeirra þingmanna sem mynduðu meirihluta samráðshóps sem komst að þeirri niðurstöðu að sú leið skyldi farin í stað þess að slá stjórnlagaþingið af eða boða til nýrra kosninga.

En nú ber svo við að þingmaðurinn treystir sér ekki til þess að flytja eigin tillögu á Alþingi.

Í viðtali við Höskuld í Morgunblaðinu í dag vísar Höskuldur á ríkisstjórnina og segir að hann hefði kosið að hún hefði flutt málið á Alþingi, þ.e. lagt tillöguna fram.

Full ástæða er til þess að benda Höskuldi Þórhallssyni á að tillagan um stjórnlagaráð er þingsályktunartillaga, þ.e. tillaga Alþingis um að forseta Alþingis verði falið að skipa þá 25 sem hlutskarpastir urðu í kosningu sem Hæstiréttur Íslands komst að niðurstöðu um að bryti gegn landslögum í stjórnlagaráð, þrátt fyrir niðurstöðu æðsta dómstól landsins.

Og þá vaknar þessi spurning: 

Hvernig getur það talist eðlilegra að framkvæmdavaldið, þ.e. ríkisstjórnin, leggi fram og mæli fyrir tillögu, sem er tillaga Alþingis, en að alþingismenn geri það sjálfir?

Rifjum það upp að þingmenn hafa á síðustu missirum lagt mikla áherslu á að staða Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu verði styrkt.

Í þeirri umræðu hefur Höskuldur Þórhallsson ekki dregið neitt af sér og talað máli Alþingis.

Með því að útskýra fjarveru sína á tillögu Alþingis um stjórnlagaráð virðist þingmaðurinn í fljótu bragði nú hafa skipt um skoðun.

Útskýringar hans verða a.m.k. ekki túlkaðar öðruvísi en þannig að hann telji eðlilegra að ráðherrar leggi fram og mæli fyrir tillögum Alþingis en að alþingismenn geri það sjálfir.

Ég trúi því hins vegar ekki að Höskuldur hafi skipt um skoðun og sé nú skyndilega orðinn talsmaður framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Ég vil að hann njóti vafans.

Ég held að afstöðu hans megi frekar skýra út með því að það séu farnar að renna á hann tvær grímur um ágæti eigin tillögu um að skipað verði stjórnlagaráð á rústum stjórnlagaþingsins.

Sigurður Kári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband